Forseti Alþingis skrifaði grein í Morgunblaðið þann 2. maí sl. sem bar heitið „Ísland og Evrópusambandið“, en hana má lesa í heild sinni hér á síðunni.

Í vikuritinu Vísbendingu var nýlega fjallað um grein Sturlu Böðvarssonar.  Greinin í Vísbendingu ber heitið „Á hnjánum?“ og birtist í 16. tölublaði, 26. árgangi, þann 2. maí sl.  Greinin er hér birt í heild sinni, með góðfúslegu leyfi ritstjóra:

Á hnjánum?

Sturla Böðvarsson skrifar grein í Morgunblaðið 2. maí 2008 um Ísland og Evrópusambandið. Sturla hefur efasemdir um að umsókn og innganga í ES sé heppileg á þessum tíma. Hann fjallar um málin af meiri hófsemi en margir efasemdarmenn. Þess vegna er gagnlegt að rekja og ræða röksemdir í greininni.

1. Sérstaða. Sturla byrjar á sérstöðu Íslendinga. „Þegar umræður um aðild okkar að Evrópusambandinu hafa nú gerst stríðari en áður er mikilvægt að meta aðstæður okkar rétt. Staða Íslands er á margan hátt einstök.“ Þetta er auðvitað rétt en ætli flestar aðildarþjóðanna séu ekki einstakar, hver með sínum hætti. Okkar er hins vegar að huga að sérstöðu Íslands því ekki verða aðrir til þess.

2. Virðing Alþingis. Næst víkur Sturla að Jóni Sigurðssyni og arfleifð hans. Jón Sigurðsson var mikill talsmaður frjálsra viðskipta og þess að þjóðir ættu samskipti á jafnréttisgrunni.
Sturla: „Mun hið háa Alþingi, sem var stofnað á Þingvöllum árið 930 og hefur verið stolt okkar Íslendinga, njóta sæmdar og hafa þau áhrif sem því ber innan
Evrópusambandsins?“ „Það virðist vera þannig að áköfustu áhugamenn um inngöngu í
Evrópusambandið láta lönd og leið forsendur fyrir fullveldi og sögulega stöðu okkar sem sjálfstæð þjóð með elsta þjóðþing veraldar. Þeir varpa öllum gildum
fyrir róða nema stundarhagsmunum okkar og mæla öll gæði í krónum eða evrum.“
Allar þjóðirnar halda sínum þjóðþingum sem eru valdamikil. Evrópulöggjöfin hefur hins vegar áhrif á löggjöf landanna á þeim sviðum sem sambandið nær til. Nú þegar eru um 20% laga sem Alþingi setur með uppruna í EES-samningnum.

3. Töfralausn. „Það eru á lofti kraftmiklar kenningar um vaxandi velsæld til sjós og lands í skjóli Evrópusambandsins. Þær kenningar eru settar fram af fólki sem við hlustum á og metum.“
Mikilvægt er að tala ekki eins og aðild að ES sé töfrasproti sem breyti öllu í einu vetfangi, hvorki til hins betra eða verra. Sturla segir:
„Ýmsir virðast nú vilja leita eftir skjóli innan
Evrópusambandsins þegar við höfum hreppt mótvind um stund og telja þá leið eina færa.“ Þetta á eflaust við um einhverja en þeir sem hafa kynnt sér málin vita að Íslendingar verða ekki teknir inn í ES daginn eftir að þeir sækja um aðild jafnvel þó að menn falli frá öllum fyrirvörum. Jafnvel hörðustu
Evrópusinnar hljóta að gera sér grein fyrir því að ferillinn að aðild tekur nokkur ár og þá árar vonandi ekki eins og nú.

4. Kosningar. „Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur varpað því fram að í næstu kosningum, sem verða ekki seinna en árið 2011, verði í raun og veru kosið um aðild okkar Íslendinga að Evrópusambandinu.“ Flestir stjórnmálamenn gera sér skýra grein fyrir því að afstaða til ES-aðildar er þvert á flokkalínur. Þess vegna er eðlilegt að efnt sé til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Líklega væri betra að hafa þær tvær en eina; fyrst um hvort hefja skuli viðræður og svo um inngöngu undir þeim skilyrðum sem þá verða þekkt. Rétt væri að efna til fyrri atkvæðagreiðslunnar fyrir næstu alþingiskosningar.

5. Yfirstjórn auðlinda. „Aðild að
Evrópusambandinu myndi kalla á breytingar á auðlindanýtingu okkar.“ Þetta er alls ekki víst, en ákvörðun um heildarveiði hvers árs lægi hjá ráðherraráðinu en ekki sjávarútvegsráðherra eins og nú. Ráðið fengi hins vegar ráðleggingar frá Hafrannsóknarstofnun og Vísindaráði ES. Líklegt verður að telja að ráð þessara vísindamanna vegi áfram mjög þungt. Eins og nú má búast við kvörtunum hagsmunaaðila þegar gripið verður til verndaraðgerða.

6. Væntingar. „Það ber umfram allt að varast að byggja upp óraunhæfar væntingar um stöðu okkar innan Evrópusambandsins.“ Þetta er hárrétt hjá Sturlu en auðvitað gildir líka að andstæðingar aðildar eiga að fara með staðreyndir og haldbær rök. Aðeins þannig verður umræðan vitræn.

7. Rétti tíminn. „Við getum ekki og eigum ekki að koma á hnjánum til forystumanna Evrópusambandsins og óska inngöngu vegna efnahagslegra vandræða.“ Hér hittir Sturla naglann á höfuðið. Það væri beinlínis kjánalegt að koma til ES á hnjánum enda engin ástæða til. „Þeir sem halda að upptaka evru sé lausn alls vanda verða að huga að því að Evrópusambandsaðild fylgir ekki sjálfkrafa upptaka hins sameiginlega gjaldmiðils.“ Þetta er líka rétt en það er mjög æskilegt fyrir Íslendinga að uppfylla skilyrðin, jafnvel þó að við hygðum ekki á aðild að myntsambandinu. Sturla segir ennfremur: „Lausn vanda okkar í efnahagsmálum er því áfram í okkar höndum um sinn.“ Þetta er laukétt. Aðild að ES getur ekki bjargað Íslendingum úr þeirri kreppu sem þeir eru í núna en hún gæti dregið úr áhrifum þeirrar næstu.

8. Fordómalaus umræða. Sturla segir loks: „Ég tel mikilvægt að stjórnmálamenn ræði fordómalaust þá stöðu sem uppi er.“ Gott væri ef stjórnmálamenn almennt hefðu sömu skoðun og Sturla. Mestu skiptir að allir kynni sér raunverulegar reglur og löggjöf ES og móti sér skynsamlega skoðun um hvaða áhrif aðild hafi í raun.