Á fjórða hundrað manns sótti opinn fund í Hölolinni í Vestmannaeyjum um samgöngumál sem samgönguráðherra boðaði til í gær, föstudag. Yfirskrift fundarins var “samgöngur við Vestmannaeyjar á nýrri öld”.
Á fundinum fór ráðherra yfir þá málaflokka sem heyra undir hans ráðuneyti, ferðamál, fjarskiptamál, flugmál, hafna- og siglingamál og vegamál. Þá fjallaði hann nánar um verkefni og framkvæmdir á vegum samgönguráðuneytisins og stofnana þess sem snerta Vestmannaeyinga beint.

Þar bar að sjálfsögðu hæst málefni Herjólfs, sem hafa verið mikið til umræðu í Vestmannaeyjum vegna væntanlegrar slipptöku skipsins. Ráðherra sagði umræðuna um Herjólf hafa farið um víðan völl að undanförnu, en frá sínum bæjardyrum væri málið eifalt – ekki kæmi til greina af sinni hálfu, og hefði aldrei gert, annað en afleysingaskip Herjólfs gæti á fyllilega boðlega hátt sinnt þeirri þjónustu sem um er að ræða.

Fjöldi fyrirspurna kom fram á fundinum,sem einkum lutu að ferðaþjónustu í Eyjum, flugi og þjónustu Herjólf. Helst var borin fram sú ósk af heimamönnum að ferðum Herjólfs yrði fjölgað frá því sem nú er. “Tvær ferðir á dag, alla daga vikuna” var algeng ósk fyrirspyrjenda.

Eins og fyrr segir var fundurinn mjög vel sóttur, eða á fjórða hundrað manns. Nokkur undiralda virtist vera á fundinum í upphafi, en hann fór vel fram í alla staði, var málefnalegur og svaraði fjölda spurninga.

Á fundinum boðaði ráðherra að hann hyggðist setja á laggirnar nefnd í samvinnu við heimamenn er fylgdist með rannsóknum á Bakkafjöru varðandi mögulega hafnargerð, hann lýsti áformum um nýja flugstöð á Bakkaflugvelli og síðast, en ekki síst, þá lauk ráðherra fundi með þeim orðum að ferðum Herjólf yrði fjölgað. Hvernig það verður gert, verður undirbúið í samvinnu Vegagerðarinnar og heimamanna.