Hæstvirtur forseti.

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, sem ég flyt ásamt háttvirtum þingmönnum, Geir H. Haarde, formanni Sjálfstæðisflokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Valgerði Sverrisdóttur, formanni Framsóknarflokksins og Guðjóni A. Kristjánssyni, formanni Frjálslyndaflokksins.

Nú á haustmánuðum hefur íslenskt efnahagslíf orðið fyrir miklum skakkaföllum eftir all langt skeið hagsældar. Þrír stærstu bankar landsins lentu þá í fjárhagsvanda sem leiddi til þess að gripið var til neyðarráðstafana gagnvart þeim á grundvelli laga nr. 125/2008, sem Alþingi hafði þá nýlega samþykkt. Á þessu ári hefur íslenska krónan enn fremur veikst mikið og verðbólga vaxið að sama skapi. Þessar hremmingar eru öllum kunnar enda snerta afleiðingar þeirra hvern mann og hvert einstakt fyrirtæki hér á landi sem og stjórnvöld. Þegar hefur ríkissjóður þurft að taka á sig miklar skuldbindingar til að styrkja gjaldeyrisforðann og verulegur samdráttur virðist í uppsiglingu í íslensku atvinnulífi.
           Margir hafa viljað rekja ástæður þessara áfalla í íslensku efnahagslífi til lausafjárþurrðar í hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Hér á landi virðist þó hin alþjóðlega fjármálakreppa koma harðar niður en víðast hvar annars staðar og taka á sig mynd djúprar efnhagslægðar. Ýmsir hafa því einnig kennt innlendum aðstæðum um hvernig komið er fyrir þjóðinni og sagt að bæði stjórnendur bankanna og stjórnvöld hafi sofið á verðinum. Eðlileg og réttmæt krafa hefur því komið fram um að ástæður þessara áfalla séu rannsakaðar á faglegan hátt og reynt að varpa ljósi á hverju sé um að kenna og hverjir kunni að bera ábyrgð á ástandinu.
           Í 39. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um ákveðna leið til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Þar segir að Alþingi geti skipað nefndir alþingismanna til að annast slíkar rannsóknir og að unnt sé að veita slíkum nefndum rétt til að heimta skýrslur af embættismönnum og einstökum mönnum. Þessi heimild Alþingis er einn þáttur í því mikilvæga hlutverki þingsins að sýna framkvæmdarvaldinu aðhald og hafa eftirlit með ráðherrum og þeirri stjórnsýslu sem undir þá heyrir. Hún tengist óneitanlega þeirri stöðu sem þingræðisreglan tryggir Alþingi gagnvart ráðherrum og ríkisstjórn svo og stjórnarskrárbundinni heimild þingsins til að ákæra ráðherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð.
           Ljóst er að rannsókn á ástæðum efnahagsáfallanna mun á einhvern hátt fjalla um þátt einstakra ráðherra við stjórnarframkvæmd auk þess sem hún mun beinast að aðgerðum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, sem báðar eru sjálfstæðar stofnanir. Af þessum sökum og með hliðsjón af mikilvægi málsins er eðlilegt að rannsóknin fari fram á vegum Alþingis. Kom þá til umræðu hvort ekki skyldi farin sú leið sem stjórnarskráin boðar, að skipa rannsóknarnefnd alþingismanna til að hafa umsjón með rannsóknarstarfinu. Í ljósi aðstæðna var fallið frá því og talið líklegra að víðtækari sátt mundi nást ef rannsóknin væri í höndum nefndar sem yrði skipuð óháðum einstaklingum sem staðið hefðu utan við átök stjórnmálanna.
           Á þessu byggist það lagafrumvarp sem hér er mælt fyrir. Með samþykkt þess verður komið á fót sjálfstæðri nefnd sérfræðinga utan þings sem fær það erfiða verkefni að varpa ljósi á aðdraganda og orsakir þess að bankarnir féllu hér á landi og segja til um hvort mistök hafi verið gerð við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi hér á landi á síðustu árum. Þá er nefndinni ætlað að leggja mat á hverjir kunni að bera ábyrgð á hugsanlegum mistökum að þessu leyti. Því er síðan nánar lýst í sex töluliðum í 1. gr. frumvarpsins hver verkefni nefndarinnar skuli vera.
Ákveðnar líkur eru á því að margir samverkandi þættir hafi orðið þess valdandi að bankarnir féllu og efnahagsáföll dynja núna á þjóðinni. Til að varpa ljósi á ástæðurnar verður því að skoða fjölmarga þætti sem tengjast bæði rekstri og stjórnun bankanna og viðbrögðum og ákvörðunum stjórnvalda. Það er mikil hætta að viðamikil rannsókn af þessu tagi fari út um víðan völl. Á sama tíma er afar mikilvægt að rannsókninni verði lokið á sem fyrst. Erfitt er að koma til móts við þessi ólíku sjónarmið, að rannsókninni gangi hratt fyrir sig en leggi jafnframt áreiðanlegan grunn að uppbyggingu fjármálamarkaðar hér á landi og nauðsynlegu uppgjöri.
           Með þessi sjónarmið í huga er í frumvarpinu lagt til að nefndin rannsaki ekki atburði sem urðu eftir að lög nr. 125/2008, neyðarlögin svokölluðu, tóku gildi nema að hún telji það nauðsynlegt. Einnig getur hún gert tillögu til Alþingis um frekari rannsókn á slíkum atburðum. Þá er það ekki hlutverk nefndarinnar að beita einstaklinga, fyrirtæki eða stjórnvöld viðurlögum heldur ber henni að tilkynna hlutaðeigandi yfirvöldum ef grunur vaknar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað eða ef ætla má að starfsmaður hafi brotið gegn starfsskyldum sínum. Þannig er í frumvarpinu leitast við að einstök mál af þessu tagi verið lögð í viðeigandi farveg án þess að bíða þurfi lokaniðurstöðu nefndarinnar.
           Meðal þess sem athuga þarf í tengslum við rannsókn á falli bankanna er hvort stjórnendur þeirra og eigendur hafi haft önnur viðhorf til hlutverks síns, ábyrgðar og siðferðis í viðskiptalífi en almennt í nágrannalöndunum. Veikleikar á þessum sviðum kunna að hafa átt þátt í því að bankarnir riðuðu til falls. Mat á þessum þáttum nýtur ákveðinnar sérstöðu samanborið við hina lagalegu og hagfræðilegu úttekt enda kallar hún kallar á þekkingu á öðrum sviðum. Því er í frumvarpinu lagt til að sérstakur vinnuhópur hugvísindamanna, skipaður af forsætisnefnd, fái það hlutverk að leggja mat á þessi atriði í samráði við rannsóknarnefndina.
           Fjallað er um skipan rannsóknarnefndarinnar í 2. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að í nefndinni verði þrír einstaklingar en þessi fjöldi nefndarmanna var ákveðinn með það í huga að starf nefndarinnar gæti gengið hratt og greiðlega fyrir sig. Til að koma til móts við það markmið að fá til verksins hlutlausa aðila sem flestir geti treyst var ákveðið að formaður nefndarinnar kæmi úr röðum hæstaréttardómara og að við hlið hans starfaði umboðsmaður Alþingis og einn hagfræðingur, löggiltur endurskoðandi eða annar háskólamenntaður einstaklingur með reynslu og þekkingu sem nýtist við rannsóknina. Bæði hæstaréttardómarinn sem velst til verksins og umboðsmaður Alþingis þurfa að fá leyfi frá störfum sínum meðan rannsóknin fer fram og eru ákvæði í frumvarpinu sem taka mið af því.
           Ljóst er að þessi þriggja manna nefnd mun ekki vinna ein að rannsókn á öllum þáttum bankahrunsins ásamt vinnuhópi hugvísindamanna. Í frumvarpinu er því mælt fyrir um að nefndin skipi sérstaka vinnuhópa með innlendum eða erlendum sérfræðingum. Er þeim ætlað að vera rannsóknarnefndinni til aðstoðar auk þess sem þeir geta unnið að einstökum rannsóknarverkefnum fyrir nefndina. Þá er henni veitt heimild til að leita sérfræðilegrar aðstoðar annarra aðila, innlendra eða erlendra, við mat á einstökum þáttum rannsóknarinnar. Jafnframt er ráðgert að nefndin geti ráðið starfsmenn sér til aðstoðar.
           Allir þeir sem vinna við þessa rannsókn, hvort sem það eru nefndarmenn, einstaklingar í vinnuhópum eða starfsmenn, eru með öllu óháðir fyrirmælum frá öðrum. Þó að rannsókn sú sem hér er boðuð fari fram á vegum Alþingis og sé reist á hlutverki þingsins við að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu er hvorki Alþingi né einstökum alþingismönnum unnt að hafa bein áhrif á framgang rannsóknarinnar. Um þetta eru fyrirmæli í 2. gr. frumvarpsins. Eftir sem áður er sú skylda lögð á nefndina í 16. gr. frumvarpsins að veita forseta Alþingis og formönnum þingflokkanna upplýsingar um framvindu rannsóknarinnar meðan hún er í gangi og getur forseti Alþingis af því tilefni gert Alþingi grein fyrir því sem fram hefur komið.
Að öllum líkindum munu nefndinni berast fjölmargar upplýsingar sem almennt eiga að fara leynt samkvæmt lögum t.d. persónuupplýsingar um fjárhag einstaklinga. Í þessu ljósi og til að auðvelda að upplýsingar verði látnar í té er mikilvægt að leggja þagnarskyldu á þá sem vinna að rannsókninni um þau atriði sem leynt eiga að fara. Þá er sérstaklega kveðið á um það í frumvarpinu að nefndin ákveði sjálf hvaða upplýsingar hún veitir um störf sín meðan rannsóknin stendur yfir.
           Það er óhjákvæmilegt að veita rannsóknarnefndinni ríkar heimildir til að afla upplýsinga bæði hjá einkaaðilum og stofnunum svo markmiðum laganna verði náð. Um það eru fyrirmæli í III. kafla frumvarpsins. Þar er mælt fyrir um skyldu sérhvers aðila til að verða við kröfu nefndarinnar um að láta í té upplýsingar, gögn og skýringar. Hvers konar reglur í lögum um þagnarskyldu, s.s. reglur um bankaleynd, eiga að víkja fyrir þessari skyldu til að verða við beiðni nefndarinnar. Neiti maður að gegna þessari skyldu bakar hann sér refsiábyrgð auk þess sem heimilt verður að leita úrskurðar dómstóla um ágreining um skylduna samkvæmt 74. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þá er nefndinni unnt að gera húsrannsókn og leggja hald á gögn í samræmi við heimildir sömu laga. Að lokum getur hún kallað menn til skýrslutöku hjá nefndinni. Verði einhver ekki við því getur hún óskað eftir því að héraðsdómari kveðji viðkomandi fyrir dóm til að bera vitni. Með þessum úrræðum er eftir fremsta megni leitast við að tryggja að nefndin geti fengið þær upplýsingar sem þörf er á.
           Ákvæði 12. gr. frumvarpsins miðar í raun að sama marki. Þar er þeim sem veita nefndinni upplýsingar sem þýðingu hafa veitt ákveðin vernd gegn því að þeir verði látnir gjalda fyrir það á einn eða annan hátt. Þá er nefndinni veitt heimild til að beina tilmælum til hlutaðeigandi yfirvalda um að maður verði ekki ákærður eða beittur viðurlögum ef mikilvægar upplýsingar sem hann lætur að eigin frumkvæði í té gefa jafnframt vísbendingu um hlutdeild hans í brotlegri háttsemi. Með þessu er leitast við að auðvelda einstaklingum að veita nefndinni upplýsingar sem þeir hefðu ella þagað yfir.
           Þó að nefndinni sé ekki ætlað það hlutverk að taka bindandi ákvarðanir um ákæru eða viðurlög hefur álit hennar óneitanlega áhrif á þá sem sæta rannsókn. Leitast er við að tryggja réttaröryggi þeirra á ýmsa lund og eiga þær reglur rætur að rekja til meginreglna stjórnsýsluréttar. Þegar einstaklingur er kallaður til skýrslutöku er honum t.d. heimilað að hafa með sér aðstoðarmann á eigin kostnað, eins og fram kemur í 10. gr. frumvarpsins, þó að skýrslutakan fari fram fyrir luktum dyrum. Þá ber rannsóknarnefndinni, eins og kemur fram í 13. gr. frumvarpsins, að gefa þeim sem ætla má að hafa orðið á mistök eða hafa orðið uppvísir að vanrækslu í starfi færi á að tjá sig um þau atriði sem nefndin íhugar að fjalla um í skýrslu sinni til Alþingis.
           Eins og áður greinir fer starf nefndarinnar fram á vegum Alþingis og er reist á eftirlitshlutverki þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þess vegna ber nefndinni að skila Alþingi rökstuddri skýrslu um niðurstöður rannsóknar sinnar. Markmiðið er að sú skýrsla liggi fyrir 1. nóvember 2009. Nauðsynlegt er að tryggja að þessi skýrsla fái síðan ákveðna afgreiðslu Alþingis auk þess að koma fyrir almenningssjónir. Í því sambandi er mikilvægt að taka skýrt fram hverjum beri að eiga frumkvæði að því að móta tillögur í ljósi niðurstöðu rannsóknarinnar sem hægt er að leggja fyrir Alþingi. Í frumvarpinu er forseta Alþingis ásamt formönnum þingflokkanna ætlað það hlutverk að gera tillögu um meðferð á niðurstöðum nefndarinnar. Ábendingar hennar sem lúta að úrbótum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi opinberrar stjórnsýslu skulu þó koma til meðferðar viðeigandi fastanefnda Alþingis í samræmi við tillögur forsætisnefndar Alþingis, eins og nánar er rakið í 15. gr. frumvarpsins.
           Aðstæður okkar Íslendinga eru mjög alvarlegar um þessar mundir og það ríkir mikil óvissa. Traust á fjármálastofnunum og þeim sem farið hafa með mál í bönkum og eftirlitsstofnunum er ekki fyrir hendi. Við þessar aðstæður, þegar bankarnir hafa komist í þrot með miklu eignatapi einstaklinga og fyrirtækja, er óhjákvæmilegt að Alþingi bregðist við og efni til þeirrar rannsóknar sem hér er mælt fyrir um.
           Ljóst er að með frumvarpi þessu er Alþingi að nokkru leyti að fikra sig inn á nýja braut. Rannsóknarnefnd alþingismanna samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar hefur ekki verið skipuð síðan 1955. Þá hefur það verið fremur fátítt að stofnað sé með lögum til afmarkaðra rannsókna með það að markmiði að upplýsa liðna atburði og koma með ábendingar um úrbætur eða leggja mat á ábyrgð. Þó eru nokkur dæmi um það á síðustu árum og má þar nefna rannsókn á starfsemi Breiðuvíkurheimilisins og athugun á opinberum gögnum í vörslu stjórnvalda um öryggismál Íslands 1945 til 1991. Í nágrannalöndunum er eftirlit þarlendra þinga með framkvæmdarvaldinu hins vegar með fastara skipulagi í þingstarfinu. Á það þá einkum við í alvarlegri málum sem kunna að varða ábyrgð ráðherra og embætti umboðsmanns eða Ríkisendurskoðun geta ekki tekið á eða hafa þegar lokið athugun sinni á málinu.
           Eins og ég gat um í ræðu minni við þingfrestun síðast liðið vor er það skoðun mín að nauðsynlegt sé að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis enda er það auk löggjafarstarfsins veigamesta hlutverk Alþingis. Í júní síðast liðnum ákvað forsætisnefnd að skipa vinnuhóp þriggja sérfræðinga sem falið var að fara yfir núgildandi lagareglur um þennan þátt í starfi Alþingis og leggja mat á hvort breytinga sé þörf. Hópurinn mun skila skýrslu um niðurstöður sínar í júní 2009. Sú vinna mun halda áfram þó að aðstæður hafi breyst og rétt þyki að Alþingi bregðist nú við þeim áföllum sem hér hafa orðið með því að hrinda af stað þeirri rannsókn sem frumvarpið boðar. Vænti ég þess að breið samstaða geti orðið um framgang málsins á Alþingi sem miðar að því að byggja upp traust og benda á hvernig koma megi í veg fyrir að hliðstæð áföll hendi aftur.
           Við Íslendingar höfum orðið fyrir miklu áfalli. Við þær aðstæður er mikilvægt að okkur takist að snúa bökum saman og endurreisa efnahag okkar og tryggja hag heimilanna og atvinnulífisins. Til þess að það takist verður að nást sátt í samfélginu. Mjög mikilvægur þáttur þess er ítarleg rannsókn á því hvað gerðist og leiddi til hruns bankanna með öllum þeim alvarlegu afleiðingum sem því hefur fylgt. Sú rannsókn sem hér er mælt fyrir er mikilvægur liður í því.

           Hæstvirtur forseti.
           Ég vil að lokum þakka formönnum stjórnmálaflokkanna fyrir ágætt samstarf við að móta það frumvarp sem hér er til umræðu og vænti að það geti orðið til þess að hér á Alþingi takist sátt og samstaða við það mikilsverða verkefni að skapa bætt samfélag sem við byggjum á þeim innviðum sem kynslóðirnar hafa byggt upp og við höfum notið og nýtt hin síðustu ár.
           Ég legg svo til, hæstvirtur forseti, að mál frumvarpið gangi til allsherjarnefndar að lokinni þessari 1. umræðu.