Föstudaginn 1. nóvember var opnunarhátíð í tilefni af endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar. Athöfnin hófst með því að samgönguráðherra afhjúpaði hnitstein flugvallarins. Við það tilefni flutti hann eftirfarandi erindi:

Borgarstjóri, ráðherrar, þingmenn og ágætu gestir.

Við erum hér  saman komin  í vöggu flugsins og miðstöð innanlandsflugs á Íslandi.

Endurbygging Reykjavíkurflugvallar er mesta framkvæmd á sviði flugöryggismála, sem ráðist hefur verið í á síðustu árum. Eftir  umfangsmiklar endurbætur er Reykjavíkurflugvöllur í fremstu röð flugvalla hvað varðar öryggi. Því ber að fagna og um leið  hljótum við að gera þá kröfu til þeirra, sem stunda flugrekstur, að hvergi verði slakað á kröfum um fyllsta öryggi þegar löggjöf og öll mannvirki eru nú í samræmi við það sem best gerist í veröldinni.

Ég vil,  sem samgönguráðherra, þakka  öllum þeim sem komið hafa að framkvæmdum við flugvöllinn. Þar vil ég fyrst nefna Flugráð, flugmálastjóra og annað starfsfólk Flugmálstjórnar, hönnuði, verktaka og þá sem komið hafa að skipulagi flugvallar svæðisins.

Í áratugi hafði Reykjavíkurflugvöllur setið á hakanum um nauðsynlegar fjárveitingar til endurbóta og frágangs á flugvallarsvæðinu. Nú hefur verið úr því bætt og við okkur blasir gjörbreyttur flugvöllur  sem fellur betur inn í umhverfið og verður ekki lengur sem kaun í landinu heldur vel frá gengið athafna svæði, vinnustaður hundruða manna, sem sinna fluginu og flugtengdri starfsemi sem og hverskonar ferðaþjónustu.
Með samþykkt Alþingis  á flugmálaáætlun, þar sem gert var ráð fyrir nýjum flugbrautum og fullkomnum aðflugsbúnaði Reykjavíkurflugvallar og með samþykkt Alþingis á fjárveitingum til framkvæmda,  var tekin ákvörðun um að Reykjavíkurflugvöllur yrði um ókomin ár miðstöð innanlandsflugs á Íslandi.

Þessari ákvörðun Alþingis var fylgt eftir með samkomulagi milli mín, sem samgönguráðherra,  og borgarstjóra þar sem staðfest voru áform um framkvæmdir og skipulag á flugvallarsvæðinu. Það mikilvæga samkomulag var síðan  staðfest af borgarstjórn  með því að veitt var heimild til framkvæmda.

Allar þessar ákvarðanir vörðuðu flugið á Íslandi miklu og eru staðfesting á því hversu miklu máli það skiptir í almenningssamgöngukerfi okkar Íslendinga.

Ég hef lagt áherslu á það að allt skipulag og framkvæmdir skuli  miðast við að taka tillit til óska borgaryfirvalda um að flugvallar svæðið yrði dregið saman sem mest mætti verða og að umferð mætti takmarka sem mest við áætlunarflugið svo ónæði frá fluginu yrði sem minnst.
Eftir að flugvallarsvæðið hefur verið girt af verður borginni skilað aftur umtalsverðu landsvæði, sem nýta má til bygginga og opinna svæða, í samræmi við skipulagáætlanir borgarinnar.

Það er von mín að nú þegar framkvæmdum er lokið við flugbrautir og umhverfi vallarins megi verða friður um þá umfangsmiklu starfsemi, sem hér fer fram og skilningur megi aukast á því að innan flugvallarsvæðisins eru margir stærstu  atvinnuveitendur borgarinnar, sem leggja til mikla virðisaukandi starfsemi í þágu allra landsmanna.

En hér má ekki láta staðar numið. Næstu skrefin hljóta vera að byggja nýja þjónustu og samgöngumiðstöð hér að austanverðu á vallarsvæðinu, svo sem skipulag gerir rjáð fyrir, sem sinnir öllum þáttum almenningssamgangna að og frá borginni. Um er að ræða í raun sjálfan miðpunktinn í samgöngukerfi þjóðarinnar. Þetta verður  tengipunktur innanlandsflugsins, millilandaflugsins, áætlunarbifreiða til og frá landsbyggðinni og strætisvagnakerfis höfuðborgarsvæðisins.

Lokaákvörðun um byggingu samgöngumiðstöðvarinnar verður tekin af Alþingi eftir umfjöllun þess um tillögu að samgönguáætlun 2003-2014, sem vonandi tekst að leggja fyrir það í þessum mánuði.  Samhliða mun ég leggja til að flugvallarsvæðið verði tímanlega tengt stofnbrautum höfuðborgarsvæðisins með nýjum afkasta miklum vegi  meðfram Öskjuhlíðinni.

Annað skref þarf einnig að stíga á næstunni. Nauðsynlegt er að taka ákvörðun um framtíðarstaðsetningu kennslu- og æfingaflugsins. Sú ákvörðun er óhjákvæmilega mjög tengd ákvörðun um framtíð innanlandsflugsins á Reykjavíkurflugvelli. Í þessu sambandi hef ég nú ákveðið að óska eftir viðræðum við borgaryfirvöld um framkvæmd og nánari útfærslu á  áðurnefndu samkomulagi okkar um snertilendingarnar frá því 1999.

Ágætu gestir.
Umræður um flugvöllinn og innanlandsflugið hafa verið stríðar síðustu misserin. Nú blasir við betri tíð. Nýr og fullkominn flugvöllur og stórbættur hagur flugfélaganna, sem sinna áætlunarflugi innanlands. Það eru ánægjuleg tíðindi sem berast um bætta afkomu flugfélaganna í kjölfar þess að innanlandsflugið hefur verið endurskipulagt með útboði á sjúkraflugi og flugi til jaðarbyggða,  sem hafa þurft styrki úr sameiginlegum sjóðum. Þessi breytta staða í fluginu og mikill vöxtur í ferðaþjónustunni hlýtur að skapa ný við horf til innanlandsflugsins  og endurbyggingar Reykjavíkurflugvallar.
Megi Guð og gæfan fylgja öllum þeim sem um flugvöllinn fara.