Í dag kl. 10.30 ávarpar ráðherra ráðstefnu um stafrænt sjónvarp á Íslandi, sem haldin er á Hótel Loftleiðum af fyrirtækinu Gagnvirkri miðlun. Ávarp ráðherra fer hér á eftir.
Ágætu ráðstefnugestir,

engum þarf að dyljast sú staðreynd að við í raun lifum og hrærumst í upplýsingasamfélagi. Hin svokallaða upplýsingabylting hefur þegar markað svo djúp spor í samfélagið að með hreinum ólíkindum er. Og þróun upplýsingatækninnar heldur áfram – á ljóshraða ef svo má segja. Hraðinn á upplýsingaflæðinu var fyrir skemmstu mældur í kílóbitum, í dag tala allir um megabita, og morgundagurinn mun vafalítið snúast um terabita. Þannig hefur öll þessi þróun verið hreint út sagt ótrúleg.

Fjarskiptaheimurinn er heillandi, og sjálfur hef ég eftir fremsta megni reynt að nýta mér tölvutæknina á hinn margvíslegasta hátt, og þannig bæði auðveldað mér starfið og um leið auðveldað aðgang að mér í ráðuneytinu. Tæknin sem til umfjöllunar er á þessari ráðstefnu hér í dag er ekki síður heillandi en sú sem við flest höfum kynnst í gegnum tölvuna fram að þessu. Fyrir skemmstu gafst mér kostur á að heimsækja eitt framsæknasta fyrirtæki Breta á sviði stafræns sjónvarps og sá þar með eigin augum hve möguleikar stafræns sjónvarps eru miklir. Mér varð þar ljóst, að það tal manna að tölva, sími og sjónvarp væri í raun að renna í eitt, væri svo gott sem orðið að veruleika.

Fyrir okkur Íslendinga, sem eigum svo mikið undir því að fjarskiptakerfi okkar sé ávallt í fremstu röð, skiptir miklu máli að fjárfestingar í kerfinu nýtist sem frekast er unnt. Ég trúi því að fjarskiptin séu í raun ákveðin forsenda framfara í landinu, og því hef ég sett fram þá skoðun mína að fjarskiptin eigi að vera fyrir alla, og í senn örugg, ódýr og aðgengileg. Til að fjarskiptakerfið geti í raun staðið undir því að vera fyrir alla, er mikils um vert að í því sé boðið upp á sem fjölbreytilegast efni, að upplýsingasamfélagið í sinni margbreytilegu mynd nái í raun og sanni um þjóðfélagið allt. Því fagna ég því alveg sérstaklega að framsækið fyrirtæki sem Gagnvirk miðlun skuli nú í dag gangast fyrir ráðstefnu sem þessari um stafrænt sjónvarp. Ég er þess fullviss að stafrænt sjónvarp og í raun og veru öll sú gagnvirka margmiðlunarveröld sem því fylgir, á eftir að njóta mikilla vinsælda – ekki síst í hinum dreyfðu byggðum sem síður fá notið fræðslu- og menningarviðburða í sama mæli og íbúar höfuðborgarsvæðisins. En ég er þess einnig fullviss, að þegar farið verður að bjóða upp á stafrænt sjónvarp hér á landi, þá verði það jafnframt til þess að ýta enn frekar undir uppbyggingu í fjarksiptakerfi landsins, og ég trúi að hugmyndir sem þær sem ræddar verða hér í dag eiga eftir að skipta verulegu máli í því að styrkja enn frekar fjarskiptakerfið um land allt. Á vissan hátt má segja að í dag eigum við að nokkru leyti vannýtta auðlind í ljósleiðarakerfinu um landið. Með stafrænu sjónvarpi yrði stigið stórt skref í þá átt að nýta betur þá fjárfestingu sem í kerfinu liggur, auka til muna umferð um kerfið, sem um leið skapar auknar tekjur og ætti að geta stuðlað að lægri gjöldum. Þannig yrði í raun stigið stórt skref í þá átt að fjarskiptin verði fyrir alla, og allt í senn, örugg, ódýr og aðgengileg.

Ágætu ráðstefnugestir,
mér er heiður af því að segja þessa ráðstefnu Gagnvirkrar miðlunar um stafrænt sjónvarp setta!