Fundarstjóri, félagsmenn í SAF og aðrir fundargestir!

Mér er það sérstök ánægja að ávarpa þennan glæsilega aðalfund SAF en þetta mun vera í fjórða sinn sem ég mæti á aðalfund ykkar sem ráðherra ferðamála og fer ekki á milli mála að fundurinn verður glæsilegri með ári hverju. Það er sérstaklega vel við hæfi að splunkunýtt hótel – Hótel Nordica, skuli skapa umgjörð þessarar þýðingarmiklu samkomu og óska ég öllum þeim sem að hótelinu koma innilega til hamingju!
Hótel NORDICA og fleiri ný hótel eru skýr dæmi um þá þrautseigju og bjartsýni sem ferðaþjónustan grundvallast á. Það er ekkert sem þvingar þessa grein til að lúta í lægra haldi og dæmin sanna líka hve skjótt mótvindur getur breyst í góðan byr.

Síðasti aðalfundur SAF var haldinn í skugga atburðanna 11. september. Þá þegar var ljóst að ákveðinna aðgerða var þörf, og á vegum samgönguráðuneytisins og fyrirtækjanna í greininni var gripið til ýmissa ráðstafana til að reyna að draga sem mest úr neikvæðum afleiðingum fyrir íslenska ferðaþjónustu. 150 milljónir króna voru settar í sérstakt markaðsátak undir stjórn ferðamálastjóra og umfangsmikilli auglýsinga- og kynningarherferð hrundið af stað í Evrópu – enda nauðsynlegt að sækja enn frekar á Evrópumarkað þegar aðstæður vestanhafs voru tvísýnar og erfiðar og fyrir lá að stórfelldur samdráttur yrði í Atlantshafsflugi Flugleiða. Jafnframt var blásið nýju og skemmtilegu lífi í markaðsherferðina Ísland, sækjum það heim. Nokkur öflug fyrirtæki komu til liðs við átakið og vakti það mikla athygli en á það skal minnt að hér er á ferðinni ímyndarvinna sem ætlað er að sá fræjum í þjóðarsálina á löngum tíma.

Við sjáum nú þegar árangur af okkar starfi því að þó að tölur sýni fækkun á höfðatölu ferðamanna til landsins á síðasta ári þá fjölgaði gistinóttum erlendra og innlendra ferðamanna um 6% á sama tíma. Það eru í raun stórtíðindi að þetta skuli takast þrátt fyrir mikinn samdrátt í Atlantshafsflugi Flugleiða og verður að teljast vísbending um að það hafi verið hárrétt ákvörðun að að hefja stórsókn á Evrópumarkað þegar í kjölfar 11. september 2001.


Við Íslendingar, eins og aðrir, lentum í varnarbaráttu þegar ferðalög um allan heim drógust saman í einu vetfangi. Íslensk ferðamálayfirvöld og fyrirtækin í greininni tóku á málum af mikilli festu og sveigðu áherslur í markaðsstarfi að gjörbreyttum aðstæðum.

Á árinu 1999 voru opinberar fjárveitingar til ferðamála 190 milljónir króna en eru á þessu ári komnar í rúmar 620 milljónir. Á tímabilinu frá 2000 til 2003 hefur því náðst að afla ferðaþjónustunni rúmlega 400 milljóna króna til vibótar því sem fyrir var og full ástæða til að fagna þeim skilningi sem greinin hefur notið hjá ríkisstjórn og Alþingi. Það er ekki síst þessum framlögum að þakka hve mjög hefur tekist að beina athygli erlendra ferðamanna að landinu.

Að auki verður á þessu ári ráðstafað 350 milljónum króna í styrki til ferja og sérleyfishafa og rúmum 130 milljónum króna til að styrkja innnalandsflug. Og því má bæta við að ferjuaðstaða á Seyðisfirði vegna nýrrar og stærri Norrænu kostar ekki undir 600 milljónum króna. Í öllum þessum tilvikum er óumdeilanlega um að ræða fjárveitingar, sem styðja verulega við vöxt og viðgang ferðaþjónustunnar um land allt.

Þrátt fyrir að hér sé hlut stjórnvalda gert hátt undir höfði vil ég taka skýrt fram að miklu fleiri eiga hér hlut að máli; stór og smá ferðaþjónustufyrirtæki um allt land hafa unnið ötullega að kynningu á Íslandi sem ferðamannalandi og hafa lagt í það mikla vinnu og fjármuni. Þar er viljinn, þörfin og þekkingin til að efla ferðaþjónustuna svo að hún nái að verða ein af styrkustu stoðum íslensks efnahagslífs. Ég vonast til að áfram verði öflugt samstarf við fyrirtækin sem eru innan vébanda SAF þó að Markaðsráð ferðaþjónustunnar hafi runnið sitt skeið. – Í átakinu Iceland Naturally ríkir blómlegt samstarf stjórnvalda, og fyrirtækja í ferðaþjónustu og fleiri útflutningsgreinum, og vona ég að framhald geti orðið á því mikilvæga máli.

Árangur íslensku flugfélaganna á síðasta ári hefur vakið eftirtekt. Þar náðist árangur sem alþjóð hlýtur að fagna. Í millilandafluginu ríkir nú hins vegar meiri samkeppni en nokkru sinni. Alls sjö fyrirtæki munu á sumri komanda bjóða upp á ferðir til og frá landinu. Tækifæri íslenskrar ferðaþjónustu til að sækja á nýja markaði og herja fastar á aðra eru því fjölmörg. Það olli mér því nokkrum vonbrigðum að ekki var meiri breidd í þeim umsóknum sem fullnægðu settum skilyrðum um samstarf um notkun markaðsfjár. Því fer þó fjarri að ég sé svartsýnn því hér er vissulega um nýjung að ræða sem greinin þarf að læra á og venjast. – Og það er von mín að framhald verði á öflugri þátttöku af hálfu ráðuneytis ferðamála við fjármögnun markaðsaðgerða.

Nafnið Reykjavík verður sífellt þekktara á erlendum vettvangi og hefur tekist að vekja áhuga ferðamanna á borginni árið um kring. Ég geri mér vel grein fyrir að höfuðborgin þarf að vera vel kynnt og hef stuðlað að því að Ferðamálaráð og Höfuðborgarstofa geri með sér tvo samninga, annars vegar um rekstur upplýsingamiðstöðvar ferðamála og hins vegar samning til að efla upplýsinga- og markaðsmál í borginni, samtals að upphæð 10 milljónir króna. Það er mér hins vegar kappsmál að samhliða áherslunni á Reykjavík verði af auknum þunga hugað að landsbyggðinni í allri kynningu. Þörfin á eflingu ferðaþjónustunnar og annarrar atvinnusköpunar úti á landi er mikil og vil ég að öllu afli sé beitt til að vekja áhuga ferðamanna á að fara sem víðast um landið. Því óskaði ég eftir því við Ferðamálaráð að mótaðar yrðu tillögur að raunhæfum vaxtarsvæðum um allt land og var gerður góður rómur að þeim á ferðamálaráðstefnunni í Stykkishólmi í haust.

Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar var lögð áhersla á að auka veg ferðaþjónustunnar m.a. með öflugu kynningarátaki á helstu mörkuðum. Eins og hér hefur verið lýst tel ég að samgönguráðuneytið hafi í störfum sínum stuðlað að síauknu framlagi stjórnvalda til kynningarmála ferðaþjónustunnar.

Í stefnuyfirlýsingunni eru einnig nefnd þau sóknarfæri sem fyrir hendi eru á sviði menningar- og heilsutengdrar ferðaþjónustu. Þeim málum fylgdi ég eftir með því að setja á laggirnar tvær nefndir til að fjalla um þessi mál. Það er skoðun mín að slík vinna sé nauðsynleg til að atvinngreinin og stjórnvöld átti sig á því hvert skuli stefnt. Ég vona að greinin geti nýtt sér þá miklu vinnu sem þarna fór fram og stjórnvöld munu gera sitt. Gott samstarf er á milli samgöngu- og menntamálaráðuneytis um að mæta vaxandi áherslu á menningartengda ferðaþjónustu um allt land.

Sveitarfélag og fyrirtæki hafa lyft Grettistaki á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu og skoðar Ferðamálaráð nú, að minni ósk, hvernig gera megi heilsu- og íþróttatengdri ferðaþjónustu enn hærra undir höfði í uppbyggingu og kynningu á íslenskri ferðaþjónustu.

Kannanir hafa margsinnis sýnt fram á þýðingu íslenskrar náttúru fyrir ferðaþjónustu þessa lands. Hestaferðir eru ein vinsælasta aðferð ferðamannsin við að renna saman við landið og hefur því skapast mikil þörf á ákveðinni grunngerð til að þessi tegund ferðaþjónustu geti þróast enn frekar. Reiðvegir hafa lengi verið til umræðu og tekur Vegagerðin fullan þátt í uppbyggingu reiðvega meðfram þjóðvegum en í samgönguáætlun er gert ráð fyrir 35-55 milljónum á ári í þennan málaflokk næstu 12 árin.

Lagning annarra reiðvega er þó jafn nauðsynleg og því skipaði ég sérstaka nefnd til að gera tillögur um frekari fjármögnun þeirra. Nefndin gerir tillögu um að hálft prósent af áætluðum gjaldeyristekjum Íslendinga af hestatengdri ferðaþjónustu fari til reiðvega og er framlag þetta áætlað um 40 milljónir króna á ári. Með þessum hætti telur nefndin fjármögnunina tengjast eðlilega við þá starfsemi sem mest not hefur af þessum framkvæmdum, sem eru notendur og seljendur hestaferða auk hestamanna almennt.

Hin tillaga nefndarinnar er að lagður verði skattur á reiðhesta en ekki er gert ráð fyrir að sú tillaga geti komið til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi að fjórum árum liðnum og þarfnast hún víðtækrar kynningar og samstöðu áður en hún getur orðið að veruleika. Það mun velta á því hverjar undirtektir hestamannafélaga verða við hugmyndum um skatt á reiðhesta en grunnhugsunin að baki tillögunni er að þeir sem noti reiðvegina taki þátt í kostnaði við gerð þeirra.

Ég mun beita mér fyrir því að framlög til þeirra reiðvega, sem ekki eru þegar hluti af samgönguáætlun, verði aukin á næsta ári og tel ég að með því móti sé að miklu leyti komið á móts við óskir nefndarinnar.

Umhverfisgjald á gistinætur og farþegaskattur hafa verið mikið til umræðu. Í mínum huga er hér ekki um sambærileg gjöld að ræða þar sem umhverfisgjald myndi leggjast á alla jafnt en farþegaskattinn greiða eingöngu þeir sem nýta flugvelli landsins. Hér verður ekki farið frekar út í þessa sálma en það er óhjákvæmilegt að ferðaþjónustan taki afstöðu til þess hver skuli greiða fyrir þjónustu flugvalla og ekki síður hvernig standa skuli að viðhaldi og úrbótum á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Til þess að ferðaþjónustan þróist í rétta átt og í sátt við land og þjóð þarf að gera áætlanir um fjölmörg atriði. Og ekki síður ef ferðaþjónustan ætlar að halda mikilvægri stöðu sinni í gjaldeyris- og atvinnusköpun þjóðarinnar. Það var því fyrir tæpum tveimur árum sem ég fékk nefnd undir stjórn Hrannar Greipsdóttur, framkvæmdastjóra Radisson SAS, það stóra verkefni að horfa til framtíðar og leitast við að meta þá sýn sem við blasir og leggja á ráðin um nauðsynlegar aðgerðir svo ferðaþjónusta megi vaxa í sátt við umhverfi landsins.

Ítarlegur listi yfir þær aðgerðir sem nefndin telur nauðsynlegt að ráðast í liggur nú fyrir. Á meðal þess sem nefndin leggur áherslu á er:

  • Nauðsyn samræmdrar ímyndar landsins sem ferðamannalands.


  • Auknar rannsóknir m.a. á hálendinu.
  • Að stuðlað skuli að alþjóðlegri umhverfisvottun sem víðast í ferðaþjónustunni (eins og reyndar fyrirtæki innan Ferðaþjónustu bænda, Farfugla og fleiri vinna nú að á markvissan hátt).
  • Settar verði skýrar reglur um lágmarkskröfur til öryggisþátta.
  • Menntun tryggi að þjónusta standist væntingar gesta.
  • Gripið verði til viðeigandi aðgerða varðandi vanda landsbyggðarhótela.
  • Markaðsstarf hins opinbera verði skilið frá stjórnsýsluaðgerðum.
  • Opinberir aðilar standi ekki í samkeppni við einkarekin fyrirtæki í ferðaþjónustu.
  • Ganga verður vel um náttúru landsins ef áhugaverð sérstaða á að haldast.

Með starfi framtíðarnefndar, tillagna um menningar- og heilsutengda ferðaþjónustu, og þeirri vinnu sem unnin hefur verið um vaxtarsvæði ferðaþjónustunnar geri ég mér vonir um að kominn sé grunnur að nýrri stefnumótun íslenskrar ferðaþjónustu. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka formanni framtíðarnefndar, nefndarmönnum og starfsmanni mínar fyrir vel unnin störf.

Nú þegar svo umfangsmikil áform um að styrkja ferðaþjónustuna liggja fyrir hef ég ákveðið að fram fari heildarendurskoðun á lögum um ferðamál og hef ég þegar óskað eftir tilnefningum í vinnuhóp sem falið verður það viðamikla verkefni.

Aukin menntun og færni starfsfólks í ferðaþjónustu er mikilvægur hornsteinn greinarinnar. Margar menntastofnanir eru að vinna stórkostlegt starf á þessu sviði og ég sé ég m.a. fram á að þær rannsóknir sem þar fara fram muni skila atvinnugreininni hratt fram á veginn þegar á næstu árum.

Þau eru mörg handtökin sem unnin hafa verið í þágu íslenskra ferðamála að undanförnu: Reykjavíkurflugvöllur hefur verið endurbyggður og öll aðstaða í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur tekið stakkaskiptum. Ný ferjuhöfn hefur verið gerð á Seyðisfirði til að taka megi á móti nýrri og afkastameiri Norrænu og ráðist hefur verið í gríðarlegar samgöngubætur um allt land. Ný samgönguáætlun gerir ráð fyrir meira fjármagni til samgöngumála en nokkru sinni. Þetta mun nýtast þeirri ferðaþjónustu sem við öll hér á þessum fundi viljum sjá blómstra á Íslandi í framtíðinni.

Ágætu fundarmenn! Það verður fróðlegt og spennandi að fylgjast með þeim erindum sem hér verða á eftir en metnaðarfull dagskrá þessa aðalfundar sýnir að SAF er að hasla sér völl sem mikilvægur hagsmunaaðili í íslensku atvinnulífi.

Að lokum vil ég þakka SAF fyrir gott og ánægjulegt samstarf á liðnum árum. Ég óska þess að aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar verði vettvangur frjórrar umræðu og að hann muni efla enn frekar samstöðu og fagmennsku íslenskrar ferðaþjónustu.