Á ríkisstjórnarfundi í morgun gerði samgönguráðherra grein fyrir stöðu mála varðandi fyrirhugaða lagningu nýs sæstrengs frá landinu. Í minnisblaði ráðherra til ríkisstjórnar segir að á síðastliðnu ári var unnin á vegum samgönguráðuneytis, verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið og RUT nefndarinnar skýrslan Stafrænt Ísland. Þar var gerð úttekt á flutningsgetu fjarskiptakerfisins og greind bandbreiddarþörf fyrir stafræna flutninga á næstu árum, innanlands sem til útlanda. Samkvæmt skýrslunni veldur það nokkrum áhyggjum að Ísland hefur aðeins eina tengingu við umheiminn, Cantat 3 sæstrenginn. Aðeins ein varaleið er fyrir hendi, um gervihnött, sem getur tekið nokkurn tíma að koma á og er auk þes með mun meiri tafir en samband um sæstreng. Niðurstaðan er sú að hyggja beri nú þegar að öðrum kostum ekki síst ef litið er til þess mikla óöryggis sem felst í því að hafa aðeins eina fasta tengingu til Íslands.