FRÉTTATILKYNNING forseta Alþingis um skipulag á Alþingisreit
Langt er síðan áformað var að byggja yfir alla starfsemi Alþingis á svokölluðum Alþingisreit sem afmarkast af Kirkjustræti, Vonarstræti, Tjarnargötu og Templarasundi. Nú er stærstur hluti af skrifstofum þingmanna, þingnefnda og hluti starfsemi skrifstofunnar í leiguhúsnæði við Austurstræti 6-14.
Þegar árið 1985 var efnt til samkeppni um nýbyggingu á reitnum, þar sem gert var ráð fyrir því að rífa öll gömul hús á reitnum, sem þá voru í eigu Alþingis. Þessum áformum var slegið á frest á sínum tíma. Í framhaldinu var deiliskipulag reitsins endurskoðað og í því gert ráð fyrir að endurbyggja tvö hús á reitnum, Kirkjustræti 8 og 10 (Kristjáns- og Blöndahlshús) og veitt heimild til byggingar Skálans. Nýtt deiliskipulag var staðfest árið 1998 og byggingu Skálans var lokið 2002. Hið nýja deiliskipulag þótti þrengja um of að möguleikum Alþingis til að flytja alla starfsemina á Alþingsreit og var fljótlega hafist handa um kanna nánari útfærslu eða endurskoðun á skipulaginu. Þessi vinna hefur því tekið nokkur ár.
Síðastliðið vor var auglýst til umsagnar ný tillaga að endurskoðuðu deiliskipulagi þar sem lagt er til að Vonarstræti 12 verði flutt á horn Tjarnargötu og Kirkjustrætis og Skjaldbreið rifin en framhliðin endurgerð. Bak við húsin og meðfram Tjarnargötu og Vonarstræti er áformað að reisa 7.100 m2 nýbyggingu að flatarmáli. Verða húsin á reitnum tengd með 300 m2 glerbrú, í 2. hæð húsanna. Þá verður gerður 1.900 m2 bílakjallari fyrir 75 bifreiðar. Þessar tillögur miðast við að nægilegt svigrúm skapist til að koma megi allri starfsemi Alþingis fyrir á Alþingisreitnum. Í framhaldinu verður mögulegt að losa leiguhúsnæði við Austurstræti að flatarmáli ríflega 4.000 m2 og selja húseign Alþingis utan reitsins, Þórshamar við Templarasund.