Nýjustu færslur

FRÉTTATILKYNNING forseta Alþingis um skipulag á Alþingisreit

Langt er síðan áformað var að byggja yfir alla starfsemi Alþingis á svokölluðum Alþingisreit sem afmarkast af Kirkjustræti, Vonarstræti, Tjarnargötu og Templarasundi. Nú er stærstur hluti af skrifstofum þingmanna, þingnefnda og hluti starfsemi skrifstofunnar í leiguhúsnæði við Austurstræti 6-14.
 
Þegar árið 1985 var efnt til samkeppni um nýbyggingu á reitnum, þar sem gert var ráð fyrir því að rífa öll gömul hús á reitnum, sem þá voru í eigu Alþingis. Þessum áformum var slegið á frest á sínum tíma. Í framhaldinu var deiliskipulag reitsins endurskoðað og í því gert ráð fyrir að endurbyggja tvö hús á reitnum, Kirkjustræti 8 og 10 (Kristjáns- og Blöndahlshús) og veitt heimild til byggingar Skálans. Nýtt deiliskipulag var staðfest árið 1998 og byggingu Skálans var lokið 2002. Hið nýja deiliskipulag þótti þrengja um of að möguleikum Alþingis til að flytja alla starfsemina á Alþingsreit og var fljótlega hafist handa um kanna nánari útfærslu eða endurskoðun á skipulaginu. Þessi vinna hefur því tekið nokkur ár.
 
Síðastliðið vor var auglýst til umsagnar ný tillaga að endurskoðuðu deiliskipulagi þar sem lagt er til að Vonarstræti 12 verði flutt á horn Tjarnargötu og Kirkjustrætis og Skjaldbreið rifin en framhliðin endurgerð. Bak við húsin og meðfram Tjarnargötu og Vonarstræti er áformað að reisa 7.100 m2 nýbyggingu  að flatarmáli. Verða húsin á reitnum tengd með 300 m2 glerbrú, í 2. hæð húsanna. Þá verður gerður 1.900 m2 bílakjallari fyrir 75 bifreiðar. Þessar tillögur miðast við að nægilegt svigrúm skapist til að koma megi allri starfsemi Alþingis fyrir á Alþingisreitnum. Í framhaldinu verður mögulegt að losa leiguhúsnæði við Austurstræti að flatarmáli ríflega 4.000 m2 og selja húseign Alþingis utan reitsins, Þórshamar við Templarasund.

Þingforsetar Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í heimsókn til Georgíu 23.-25. september 2007

Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, mun ásamt öðrum forsetum þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna heimsækja Georgíu dagana 23.-25. september nk. Í för með forseta verður Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis.Ferðin er hluti af sameiginlegu verkefni þingforseta landanna og er markmið hennar að styðja við lýðræðisþróunina í Georgíu. Mun m.a. verða rætt um með hvaða hætti þessi þing geti stutt við þjóðþing Georgíu í þeirri þróun. Þingforsetarnir munu eiga fundi með Saakashvili, forseta Georgíu, Nogaideli, forsætisráðherra, og Burjanadze, þingforseta, og öðrum ráðamönnum. Þá munu forsetarnir jafnframt taka þátt í tveimur pallborðsumræðum um málefni tengd heimsókninni. 

Fundur forseta Alþingis og stjórnar Torfusamtakanna

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, átti fund með stjórn Torfu-samtakanna þann 17. september í Alþingishúsinu um skipulag á Alþingisreitnum og endurbyggingu húsa Alþingis en samtökin sendu inn ýmsar athugasemdir við deiliskipulagstillögu um Alþingisreitinn sem nú er til lokameðferðar hjá Reykjavíkurborg.

Það kom aldrei til álita að virða þarfir Grímseyinga að vettugi

Úttekt Morgunblaðsins á Grímseyjarferjumálinu sl sunnudag er ítarleg og um margt prýðilega unnin. Blaðið kýs að gera það að aðalatriði á forsíðu sinni að ég hafi tekið þá ákvörðun að endurnýja ferjuna að viðhöfðu samráði við Grímseyinga og að teknu tilliti til óska þeirra og þarfa. Við ábyrgð á þeim þætti málsins gengst ég  fúslega og er sannfærður um að engum hefði þótt eðlilegt að ráðast í þessa endurnýjun án náins samráðs við heimamenn. Önnur umfjöllun um endurnýjun Grímseyjarferju hefur einnig verið mikil á undanförnum vikum og á köflum í talsverðum upphrópunarstíl. Kastljósi hefur meðal annars verið beint að samgönguráðuneytinu og ákvarðanatöku minni sem samgönguráðherra. Í ljósi umræðunnar, og í framhaldi af úttekt Morgunblaðsins, tel ég eðlilegt að koma eftirgreindu á framfæri og vísa að auki til yfirlýsingar sem ég sendi í fjölmiðla 16. ágúst s.l.

Yfirlýsing frá Sturlu Böðvarssyni vegna umræðu um Grímseyjarferju

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um nýja Grímseyjarferju hefur orðið tilefni mikillar umræðu undanfarna daga. Vegna núverandi starfa minna tel ég mig ekki í aðstöðu til að tjá mig um efni þeirrar skýrslu.  Mér finnst heldur ekki rétt að ég tjái mig um málið sem fyrrverandi samgönguráðherra. Samgönguráðuneytið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að núverandi stjórnendur ráðuneytisins líti málið alvarlegum augum og muni í framhaldinu bregðast við með viðeigandi hætti. Við það hef ég engu að bæta.
 
Þar sem mjög er leitað eftir umsögn frá mér um þetta mál leyfi ég mér þó að benda á að Vegagerðin annast fyrir samgönguráðuneytið útboð og umsjón með framkvæmdum sem að jafnaði kosta á bilinu tíu til tuttugu milljarða króna ár hvert. Samgönguráðherra á hverjum tíma verður að sjálfsögðu að treysta stofnunum sínum og ráðgjöfum þeirra til þess að fara að verklagsreglum og sinna daglegum störfum sínum af ýtrustu fagmennsku. Verði misbrestur þar á er endanleg ábyrgð vissulega ráðherrans en dagleg afskipti hans eða yfirsýn vegna framvindu einstakra verkefna af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir eru auðvitað óhugsandi.  Af hálfu ráðherra voru aldrei gefin fyrirmæli  sem áttu að geta leitt til þeirrar niðurstöðu sem nú liggur fyrir um kostnað við ferjuna.
 
Við ákvörðun um nýja Grímseyjarferju voru einkum tveir valkostir til skoðunar. Annars vegar að kaupa notað skip og lagfæra það til samræmis við þarfagreiningu sem sérstakur starfshópur sem ég skipaði árið 2003 hafði framkvæmt. Hins vegar að ráðast í nýsmíði sem augljóst var að yrði mun dýrari kostur. Ódýrari leiðin var valin en því miður kom í ljós að kostnaðaráætlanir  reyndust mjög óraunhæfar miðað við þær endurbætur sem nauðsynlegt var að ráðast í. Engu að síður bendir allt til að  endanlegur kostnaður við kaup og lagfæringar Grímseyjarferjunnar verði undir því verði sem þurft hefði að greiða fyrir nýtt skip. Hagkvæmasti kosturinn var því valinn og þrátt fyrir að framvinda verksins hafi auðvitað valdið miklum vonbrigðum var aldrei um annað að ræða en að ljúka því með eins hagkvæmum hætti og frekast væri unnt.
 
Vegagerðin hefur í gegnum tíðina annast fjölmörg stór verkefni á borð við jarðgangagerð og smíði brúarmannvirkja til viðbótar við kostnaðarfreka vegagerð með óaðfinnanlegum hætti. Engu að síður er fullkomlega eðlilegt að þegar undantekning verður á, jafnvel þó verkefnið sé ekki umfangsmikið á mælikvarða ríkisframkvæmda, verði það tilefni til rækilegrar umfjöllunar og viðeigandi aðgerða. Augljóst er hins vegar að slíkt getur aldrei verið á borði fyrrverandi samgönguráðherra heldur einungis þeirra sem nú standa við stjórnvölinn í ráðuneytinu.
 
Reykjavík, 16.8.2007

Sturla Böðvarsson

1 18 19 20 21 22 172