Nýjustu færslur

Nicholas Burns heimsækir Alþingi

Forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, tók í dag á móti Nicholas Burns aðstoðarutanríkis-ráðherra Bandaríkjanna í Alþingishúsinu. Forseti Alþingis ávarpaði Burns í þingsal og gekk með honum um þinghúsið. Burns ritaði síðan nafn sitt í gestabók Alþingis. Bandaríski aðstoðarutanríkis-ráðherrann er staddur hér á landi til viðræðna við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra um tvíhliða samstarf þjóðanna í öryggis- og varnarmálum.

Sturla Böðvarsson fær heiðursverðlaun Samstöðu

Samstaða, áhugahópur um slysalausa sýn í umferðinni, afhenti í gær Sturlu Böðvarssyni, fyrrverandi samgönguráðherra, fyrstu heiðursverðlaun samtakanna fyrir framlag hans til umferðaröryggismála. Um leið færði Sturla nýjum samgönguráðherra, Kristjáni L. Möller, kefli fyrir hönd Samstöðu til merkis um að halda áfram starfi samgönguyfirvalda að fækkun umferðarslysa.

Þingmenn Norðvesturkjördæmis funda um málefni Vestfjarða.

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis boðaði þingmenn kjördæmisins til fundar í morgun um málefni Vestfjarða sérstaklega. Til fundarins kom einnig formaður Vestfjarðarnefndar ríkisstjórnarinnar Halldór Árnason skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Fyrir fundinum lá greinargerð frá Aðalsteini Óskarssyni framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfjarða um stöðu atvinnumála í fjórðungnum.

Ávarp nýkjörins forseta á þingsetningarfundi 31. maí 2007

Ég þakka háttvirtum starfsaldursforseta, Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra, árnaðaróskir í minn garð og alþingismönnum þá virðingu sem þeir sýna mér með því að kjósa mig forseta Alþingis. Ég mun leggja mig fram sem forseti við  að sem best samstarf takist milli allra hv. alþingismanna um þau störf sem þjóðin hefur falið okkur í  nýafstöðnum kosningum. Ég vænti einnig góðs samstarfs við hið ágæta starfsfólk Alþingis.

1 20 21 22 23 24 172