„Ísland, sækjum það heim“ – Ráðherra skrifar undir samkomulag
Í morgun, föstudaginn 14. júní, var undirritað samkomulag um ferðaátakið „Ísland – sækjum það heim“ en það mun standa yfir í allt sumar. Það voru Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra og Einar K. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, ásamt forsvarsmönnum Olíufélagsins ESSO, Íslandspósts og Ríkisútvarpsins sem undirrituðu samkomulagið en það gerir ráð fyrir alls 50 milljónum króna til kynningar á ferðamöguleikum Íslendinga í eigin landi. Meginuppistaða átaksins er ferðaþátturinn Hvernig sem viðrar, sem sýndur verður vikulega fram eftir sumri. Einnig verður sérstakur póstkortaleikur í gangi og verða vinningshafar dregnir út á Rás 2 í allt sumar. Í haust verður síðan dregið úr öllum póstkortum og eru veglegir vinningar í boði.Undirritunin fór fram á markaðstorgi Fjörukrárinnar í blíðskaparveðri. Í ávarpi samgönguráðherra gerði hann að umtalsefni þær tekjur sem innlendir ferðamenn leggja til þjóðarbúsins en þær munu vera um 12 milljarðar króna á ári. Lagði hann áherslu á að aðilar í ferðaþjónustu, sveitarfélög og einkaaðilar, nýttu sér kynningarátakið og „leiki nú sóknarleik“ enda skuli hér spilað til vinnings í öllum skilningi.