Nýjustu færslur
Aukin neytendavernd í frumvarpi til fjarskiptalaga
Ýmsar breytingar verða á lögum um fjarskipti samkvæmt frumvarpi sem Sturla Böðvarsson mælti fyrir á Alþingi í gær. Meðal annars á öll netþjónusta að falla undir hugtakið fjarskiptaþjónusta og fjarskiptafyrirtæki verða skylduð til að skjalfesta hvernig þau standa að net- og upplýsingaöryggi sínu. Einnig mælti ráðherra fyrir breytingum á vegalögum þar sem heimila á gjaldtöku af umferð og fleira.
Ávarp Sturlu Böðvarssonar á aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands 25. 1.
Fundarstjóri, góðir fundarmenn
Mér er það ánægjuefni að ávarpa aðalfund ykkar þar sem áformað er að ræða markaðsmál og sameiningu kraftanna. Það er líka mikið ánægjuefni fyrir mig að sitja fund hér á Ísafirði þar sem ferðaþjónustan er ört vaxandi og mikilvægur atvinnuvegur.
Ræddi markaðsmál ferðaþjónustu, samgöngur og fjarskipti
Samgöngumál, fjarskipti og markaðsmál í ferðaþjónustu voru meðal umræðuefna í ávarpi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra á aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands sem nú stendur á Ísafirði. Auk hefðbundinna aðalfundastarfa eru á fundinum flutt erindi um uppbyggingu markaðsstofu Vestfjarða og stefnumótun og miðlun upplýsinga. Ræðuna má sjá í heild hér á síðunni undir Ræður.
Hannes Kristmundsson nýkjörinn Sunnlendingur afhendir þakkarvott
Hannes Kristmundsson nýkjörinn Sunnlendingur ársins leit við hjá samgönguráðherra á dögunum og afhenti honum þakkargjöf. Þar segir ,,Minnismerkið við Kögunarhól á Ingólfsfjalli í Ölfusi, sem reist var 19. des., 2006 við 52 krossa, minnir vegfarendur á nauðsyn þess að hugað sé vel að umferðaröryggi á Suðurlandsvegi og öðrum vegum landsins. Merkið og krossarnir eru fyrsti áfangi þess að koma upp varanlegum minnisvarða um þá sem farist hafa á veginum. Krossarnir minna á hversu mikilvægt það er að leita alla leiða til þess að ná hámarksöryggi í umferðinni með tvöföldun og lýsingu vegarins, góðum akstursmáta ökumanna og öruggum ökutækjum”. Undir skjalið rita hjónin Hannes Kristmundsson og Sigurbjörg Gísladóttir, áhugamenn um öruggan Suðurlandsveg.
Heimsótti skóla, fiskiðju og sparisjóð á Flateyri
Sturla Böðvarsson var á ferðinni á Vestfjörðum í dag og heimsótti meðal annars Flateyri og átti hádegisfund með sjálfstæðismönnum á Ísafirði. Jafnframt ráðgerði hann að vera viðstaddur undirritun samnings um vegagerð í Mjóafirði og ávarpa síðan aðalfund Ferðamálasamtaka Íslands.